Í angistarfullum orðum argentíska játningaskáldsins Alejöndru Pizarnik birtist ákveðið raddleysi. Rödd hennar á sér ekki heima í okkar mannlega umhverfi, heldur í útjaðrinum, með dýrunum og öllum hinum. Þesskonar raddleysi lýsir einkar vel stöðu konunnar, samkvæmt Simone de Beauvoir, og hvernig notkun á karllægu tungumáli hefur orðið til þess að klofnun verður í sjálfi kvenna. Hið ráðandi sjálf, er mótað af samfélagslegum gildum og eftirvæntingum, fölskum röddum og raddleysi, hið víkjandi sjálf er frjálst, villt og hefur sína eigin rödd. Rödd sem er þeirra og aðeins þeirra.
