A Midsummer Night’s Dream er það leikrit sem ég þekki best. Og þá er ég ekki bara að tala um Shakespeare. Ég kann það næstum utanað. Hef leikið í því, samið við það tónlist, þar á meðal heila óperu við harmleikinn um Píramus og Þispu, leikstýrt því, unnið með það á námskeiðum og séð það í fleiri uppfærslum (held ég) en nokkurt annað. Þrisvar í Nemendaleikhúsinu, einu sinni í Þjóðleikhúsinu og einum sex áhugaleikfélagauppfærslum. Næstum allar voru þær í það minnsta skemmtilegar og ein þeirra, uppfærsla Guðjóns Pedersen í Nemó 1993, er með eftirminnilegustu kvöldstundum sem ég hef átt í leikhúsi, og er þá þónokkuð sagt.